Lífið er of stutt til að kveikja á kertum sem ilma ekki
UM ÆVINTÝRIÐ OKKAR
Sagan
Hvað framleiðum við?
Við framleiðum í dag ilmkerti og ilmolíur, eins hafa skrautkerti án ilms verið að skjóta upp kollinum hjá okkur.
Töfraljós voru stofnuð rétt fyrir jól 1999. Mér fannst vanta á markaðinn raunveruleg ilmkerti sem brunnu ekki upp á einum degi og ilmurinn varla til að tala um þótt lyktin af kertinu væri kæfandi. Fyrr á þessu ári hafði ég komist í kynni við konur frá ýmsum löndum og þær voru og eru enn uppfullar af allskonar upplýsingum sem hafa hjálpað mér mikið, því það er óþarfi að allir finni upp hjólið. Eftir margar prufur á vaxi og ilmefnum þá á endanum var komið val um að kaupa vax og ilmefni sem mér líkaði samspilið og gaf bestan ilminn og hélst í kertinu hvort sem það stóð á borði eða var kveikt á því. Ég byrjaði í eldhúsinu en það var nú ekkert voðalega vinsælt. Því nú var matur eftir því hvernig stóð á pöntunum og eldhúsborðið var fullt af kertum sem pakka þurfti þannig að aðstaðan til að borða var farin líka.
Með fortölum fékkst ég til að flytja mig yfir í vaskahúsið með pottanna mína og pönnurnar. Þá tók ekki betra við að sögn heimilismanna, ef þvegið var þá angaði þvotturinn af því ilmefni sem notað var í það skipti sem hengt var upp.
Svo fór að bera á því að heimilisfólk og gestir áttu erfitt að fóta sig þegar teppum sleppti. Við fórum að leggja tvo og tvo saman og komust að því að sjálfsagt hefði gólfið aldrei verið eins vel bónað eins og eftir að framleiðslan hjá mér jókst. Vaxlag fór að myndast á gólfum og þegar ég skúraði minnkaði hálkan. Nú var svo komið að ef halda átti hálkunni niðri varð að skúra á hverju kvöldi og þar sem annað heimilisfólk var lítið hrifið af því að skúra var þetta hið mesta vandamál. Var sett upp skilti varist hálku :) við útidyrnar. Svo fór að ég fékk á endanum yndislegt hús úti á lóð til að framleiða kertin mín. (Og ég get sagt ykkur það í trúnaði að önnur eins breyting á heimilislífi og þrifum var með ólíkindum.) .
Ég byrjaði að nota eingöngu plastmót allskonar í framleiðsluna en tók eftir því að það var eins og ilmefnin og íhlutunarefnin sem ég notaði voru farin að tæra mótin á innan, ég fór þá meira út í gúmmímót en þar sem fleiri voru í framleiðslu á þeim og mér finnst lítið gaman af því að herma eftir öðrum og eftir því sem fleiri framleiða sama hlutinn þá tapa allir. Þannig að næsta skref var árið 2000 að finna góð mót sem hentuð mér og því sem ég vildi gera og sérhæfa mig í. Árið 2001 sendi ég inn kerti í samkeppni hjá virtu félagi sem heitir CC candlemakingclub. Félagar í því framleiða eingöngu kubbakerti eins og ég. Ég þurfti að senda inn vax sem ég hafði litað og skorið niður í kubba og svo nokkur kerti. Þarna vann ég mína fyrstu medalíu og var í fyrsta sæti. Ég tók ekki þátt í keppninni í síðast liðið ár heldur gerðist styrktar aðili og sendi verðlaunagripi fyrir öll þrjú verðlaunasætin. Þó ég hafi viljað halda sætinu mínu þarna var leitað til mín til að gera þessa verðlauna gripi alveg spes og við sem vorum í verðlaunasætunum í fyrra styrktum keppnina með því að gera fallega hluti fyrir vinningshafana.
Árið 2002 fór ég með tveim öðrum listakonum norður á Hrafnagil. Það var söguleg sýning að mörgu leiti fyrir okkur allar. Við vissum ekkert við hverju mátti búast og því vorum við alls ekki undirbúnar undir að dreifa því líku magni af bæklingum sem fór frá okkur yfir sýninguna. Ég þóttist nokkuð góð með 700 bæklinga og slatta af nafnspöldum, en þegar dagur 1 var hálfnaður var neyðarhringing austur á Selfoss á Fossheiðina og beðið um eins og 2000 bæklinga í viðbót og þar tók við að heima sat Steini Gunn og prentaði alla nóttina og sendi 1650 bæklinga með flugi næsta dag. Og hélt áfram að prenta og á laugardeginum náðum við í 2000 bæklinga í viðbót og við áttum ekki einn einasta eftir þegar helgin var liðin.
Fyrir þessa sýningu vorum við allar á kafi í að framleiða. Ég með eitt mót af hverju kerti og það þurfti miklar taugar til að bíða eftir að kertin kæmust úr mótunum. Þannig að helt var í öll mót og um kvöldið var farið að losa um og hella í mótin aftur til að kerti yrðu tilbúin um morguninn svona var dagurinn minn allan júní og júlí mánuð. Þótti nú heimilismönnum nóg um, ég á taugum yfir því að hafa ekki nóg, og þeir í hálfgerðu svelti meðan pökkunin fór fram í eldhúsinu. En á Hrafnagil komumst við og það var yndislegt að vera þar og við kynntumst mörgum yndislegu handverksfólki, og ekki má gleyma frábæru gestunum sem komu og spjölluðu við okkur og versluðu af okkur.
Kertin okkar fást nú víða um allt land en samt eingöngu í litlu mæli því við erum ekki í stórframleiðslu heldur leggjum áherslur á gæði vörunnar og að viðskiptamenn okkar séu ánægðir.